Fæðingarsagan mín – Telma

Hæhæ!
Mig langar að deila með ykkur minni fyrstu fæðingarsögu sem er besta en erfiðasta lífsreynsla sem við fjölskyldan höfum gengið í gegnum.
Elsti gullmolinn minn kom í heiminn þegar ég var nýorðin 17 ára og ég hafði svosem ekkert vit á neinu tengdu meðgöngu eða fæðingu, enda ekki fengið mikla fræðslu þannig séð. En við höfðum fjölskyldurnar okkar sem stóðu eins og styttur við bakið á okkur. Meðgangan útaf fyrir sig gekk mjög vel en ég fékk slæma grindargliðnun á viku 28 og þurfti að hætta að vinna í kringum 33 vikur.
En þegar kom að fæðingunni þá var ég búin að finna aðeins fyrirvaraverki frá viku 39 en það var ekki fyrr en hreyft var við belgnum í skoðun þegar ég var komin 41 viku sem eitthvað fór að gerast. Ég fór að finna mikla samdráttarverki og hamingjan við að loksins væri eitthvað að gerast var svo mikil! Ég hringdi í mömmu og bað hana að um koma strax en hún mátti ekki vera að því að tala í símann enda í nuddi og segir ”Hæ ástin mín ég hringi eftir smá”. Ég reyni þá aftur að ná í manninn minn sem var í jarðarför hjá afa sínum enn eðlilega svarar hann ekki símanum. Loksins þegar allir voru komnir var drifið sig úr jakkafötum í jogging gallann og brunað uppá deild þar sem yndislegar konur tóku á móti okkur, skoðuðu mig og vildu halda mér inni þar sem ég var með svo svakalega verki.

Við fáum herbergi og komum okkur vel fyrir þar, svo þegar verkirnir fóru að aukast fékk ég glaðloft, nálastungur og svo loks mænudeyfingu sem sló fyrst á verkina og ég gat hvílt mig aðeins á milli verstu hríðanna. Það var mjög kærkomið þar sem ég fékk hita og varð mjög slöpp. Fæðingin gekk ekki eins vel og við höfðum vonað en það þurfti að sprengja belginn og þá kom í ljós að legvatnið var grænt. Notuð var sogklukka tvisvar sem varð til þess að sonur minn fæddist með blæðandi sár og mar á höfðinu. Óhætt er að segja að hann hafi verið þvingaður í heiminn þar sem að ég hef átt tvö börn á eftir Alexander og báða fæddi ég með keisara þar sem líkaminn minn virðist ekki vera gerður fyrir venjulega fæðingu.

Loksins þegar litli molinn okkar kom í heiminn eftir 38 klst fæðingu þá var okkur sagt að hann þyrfti að fara inná vökudeild til að fá sýklalyf  og betri skoðun. Ég fékk hann á bringuna í ca 10 sek en svo var hann lagður á borðið hjá læknunum og skoðaður. En þeim leist ekki nógu vel á grátinn hjá honum þar sem það voru bara stunur í honum, hann var svo settur í vöggu og rúllað með hann upp á vökudeild. Maðurinn minn fékk að fara með honum þangað meðan ég var saumuð saman og græjuð. Svo kemur hann aftur til að ná í mig en ég segi að ég verð að fá að fara á klósettið áður en við förum upp. Þegar ég stend upp og ætla að fara að pissa líður yfir mig vegna blóðleysis eftir mjög erfiða fæðingu. Ég var því sett í hjólastól til öryggis á leiðinni uppá vökudeild til hans. Þegar við komum fáum við að vita að allt sé búið að ganga vel og hann fái fljótlega að koma niður til okkar á sængurkvennadeildina. En svo rétt áður en hann átti að koma þá tók einn hjúkrunarfræðingurinn eftir kippum í öðrum fætinum hjá honum. Sem betur fer var hún ekki tilbúin að útskrifa hann af vöku því að stuttu síðar fer hann í öndunarstopp sem endurtók sig 16x fyrsta sólarhringinn en fór svo fækkandi með dögunum. En það tók 4 daga að koma honum í jafnvægi og finna út hvers vegna hann var alltaf að fara í öndunarstopp en niðurstaðan var blóðrásatruflanir í heilanum. Það var búið að setja inn margskonar floga- og sýklalyf hjá honum þegar loksins náðist að stoppa þetta.

Starfsfólk vökudeildarinnar gerði allt sem það gat til að okkur liði sem best meðan á öllu stóð en við fengum oft spurninguna „eruði búin að velja nafn?“ við svörum því játandi og þá brostu þau bara til okkar og sögðu „það er nú gott að vera við öllu búinn þegar staðan er eins og hún er“.

Kvöldið eftir fæðinguna þá er ég að labba inn á baðherbergið í okkar stofu og missi þá allann mátt í fótunum sem endurtók sig aftur og aftur. Það var því fenginn taugasérfræðingur til að skoða mig sem leist ekki mjög vel á og bókaði fyrir mig segulómun á hryggnum. Þá kom í ljós mikil bólga við spjaldhrygginn og seinna meir kom í ljós að ég er með taugaskaða líka. Málið er að læknirinn sem mænudeyfði þurfti að stinga mig þrisvar af því að það var alltaf eitthvað sem klikkaði, sem varð til þess að hann stakk á taug sem olli þessum bólgum og taugaskaða (samkvæmt öðrum lækni sem ég talaði við um þetta!) en ég gat ekki gengið í 7 daga og var orðin mjög hrædd um að ég væri með varanlega lömun en sem betur fer gekk það til baka að mestu leyti.


En aftur að elsku Alexander mínum, fæðingin var því miður röð af læknamistökum og við tóku ennþá fleiri mistök eftir að hann er fæddur. Við vissum ekki af því fyrr en löngu seinna þegar farið var að spyrja okkur út í það, hvort þeir hafi ekki örugglega kælt hann þegar hann lá inni á vökudeildinni, við svörum því náttúrulega bara neitandi. Þá er alltaf snúið út úr fæðingatalinu og helst ekki rætt meira um það. Eftir á þá vitum við að það hefði átt að kæla hann og mögulega þannig hefði verið hægt að koma í veg fyrir eitthvað af þeim erfiðleikum sem elsku barnið mitt hefur þurft að eiga við.

Við fundum fyrir sérstaklega miklum fordómum. Okkur voru ekki veittar nógu miklar upplýsingar og engin aðstoð var boðin, hvorki áfallahjálp né sálræn aðstoð, til að hjálpa okkur að vinna úr áfallinu. Við fengum oft að heyra „Þið eruð svo ung þið vitið ekki hvernig þetta á að vera“ og „svona er þetta bara með fyrsta barn“. En metið var slegið þegar nýburalæknirinn sem  tók okkur á fund til þess eins að segja okkur að við ættum að búa okkur undir það versta, líkurnar á að hann myndi lifa væru ekki miklar og ef hann myndi lifa þá myndi hann aldrei koma til með að sitja, standa og hvað þá ganga sjálfur. Hann talaði eins og barnið okkar skipti litlu sem engu máli, svo förum við í sjokki útaf fundinum og hann kallar á foreldra okkar sem voru sem betur fer með okkur, nema þá segir hann mjög rólega: „Já, staðan er nú þannig að hann er mjög veikur og við getum ekkert sagt til um stöðuna eins og stendur, en hann er búinn að vera stöðugur núna svo við vonum að hann haldi áfram á þessari braut“. Við fengum eiginlega meira sjokk þarna og að faglærður læknir skuli sýna okkur sem foreldrum svona mikla vanvirðingu, hvort sem við værum 17 eða 37 ára, það á ekki að skipta nokkru máli. Við vorum að eignast barnið og vorum hjá honum öllum stundum að biðja fyrir því að hann myndi fá að vera með okkur áfram!

Molinn okkar útskrifaðist svo af vökudeild 10 daga gamall og við tók ferli sem við vissum ekkert hvernig myndi verða. Við vorum ákveðin í því að ala hann upp nákvæmlega eins og önnur börn og að við myndum gera allt sem við gætum gert til að aðstoða hann á allan þann hátt sem við gætum og ég held að okkur hafi tekist það bara ágætlega!

Alexander okkar er í dag greindur með CP og flogaveiki, en hann er líka með mikla þroskaskerðingu, talar ekki og enginn veit hversu mikið eða lítið hann skilur okkur en fólk virðist oft halda að minna sé að honum af því að hann gengur sjálfur. Ég hugsa að ég muni gera sér færslu við tækifæri sem er meira um hann og hvernig það er að verða ung mamma sem eignast barn sem er ”öðruvísi” en þau börn sem maður hafði umgengist í lífinu og hversu dýrmætt verkefni þetta er og mikill lærdómur fyrir mann.

Vonandi nennti einhver að lesa allt!
Þangað til næst,

Þér gæti einnig líkað við