Við héldum upp á 4 ára afmælið hennar Ágústu Erlu laugardaginn 17. ágúst en hún á afmæli þann 20. ágúst. Við erum í frekar litlu húsnæði eins og er og því ákváðum við að hafa opið hús frá kl.14-17.
Það var spáð góðu veðri þannig að við ákváðum að grilla pylsur. Það sem var einnig á boðstólnum var ostasalat og túnfisksalat með brauði og kexi, dumle-lakkrís-kornflakes nammi (sjá uppskrift neðar) og afmæliskaka. Ég passaði mig þetta árið að vera ekki með alltof mikið af veitingum, þetta var alveg passlegt!
Dúkinn, diskana, servíetturnar, kökudiskinn, glösin, fánaveifurnar, flauturnar og confetti sprengjuna keypti ég í Barcelona í búð sem heitir HEMA, ein uppáhalds búðin mín.
Ágústa Erla fékk að sjálfsögðu að velja þemað á afmæliskökunni. Upphaflega bað hún um pony köku en svarið breyttist ansi oft og taldi hún upp til dæmis Shimmer and Shine, Trolls, einhyrning og Mínu mús. En lokaniðurstaðan var pony, eins og hún bað um fyrst.
Ég töfraði fram pony köku en ég er ekki með mikla reynslu af kökugerð, hvað þá svona flottum pinterest kökum sem eru í öllum afmælum núna. En ég vildi frekar gera hana sjálf þetta árið en að kaupa svoleiðis glæsiköku. Ágústa Erla var allavega mjög ánægð með hana og það skiptir öllu.
Hér er uppskriftin að dumle-lakkrís-cornflakes nammibita kökunum en þær slógu í gegn! Uppskriftina fann ég á paz.is en þar er að finna fullt af flottum mat og kruðeríi.
Bilað gott konfekt með Dumle karamellum, lakkríslengjum, kornflakes og rjómasúkkulaði
Í uppskriftina þarf:
300 gr Dumle karamellur
130 gr smjör/ljóma
200 gr fylltar lakkrísreimar
90 gr kornflakes mulið gróflega
Krem:
400 gr Rjómasúkkulaði
60 gr smjör/ljóma
Aðferð:
Bræðið saman smjöri og karamellum í potti við vægan hita, passið að hræra reglulega í. Í lokin þegar búið er að slökkva undir pottinum, er gott að píska þessu saman hratt svo smjörið nái að blandast vel við karamellurnar.
Klippið lakkrísreimarnar út í og myljið kornfleksið gróft saman við og hrærið saman.
Setjið á smjörpappa og breiðið úr þessu í ferning, setjið svo í frysti á meðan kremið er útbúið
Bræðið smjör og rjómasúkkulaði saman yfir vatnsbaði og takið konfektið úr frysti og dreyfið yfir.
Stingið svo aftur í frystinn og látið vera þar alla vega hálftíma.
Gott er svo að taka konfektið út 10 mínútum áður en á að skera það því það verður mjög hart í frysti.
Uppskriftina af túnfisksalatinu fékk ég hjá Lindu Ben og var það ótrúlega djúsí og gott!
Dúnamjúkt túnfiskasalat með rjómaosti
Hráefni:
1 dós túrfiskur í olíu
½ rauðlaukur smátt skorinn
½ gul paprika
4 stk egg
3 msk Heinz mayonnaise
3 msk hreinn Philadelphia rjómaostur
Salt og pipar
Aðferð:
Sjóðið eggin þar til þau eru harðsoðin (8 mín) og kælið þau svo niður.
Hellið allri auka olíu af túnfiskinum og setjið hann svo í skál, tætið hann niður svo það séu engir kekkir.
Skerið rauðlaukinn og paprikuna mjög smátt niður. Bætið því út í skálina ásamt Philadelphia rjómaosti og blandið saman. Skerið eggin niður smátt og blandið saman við.
Setjið því næst mayonnaise og blandið saman. Kryddið með salti og pipar.
Í blogginu sem ég gerði fyrir 2 ára afmæli Ágústu Erlu getið þið séð uppskriftina að ostasalatinu sem ég nota alltaf – HÉR.
Við áttum yndislegan dag með fjölskyldu og vinum. Krakkarnir léku sér eiginlega allan tímann úti í garði og heppnaðist allt mjög vel. Ágústa Erla fór himinlifandi að sofa eftir daginn.
xo
Guðrún Birna
Instagram: gudrunbirnagisla