Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki sú duglegasta að þrífa. Það er svo skrítið, en mér tekst bara einhvernveginn alltaf að finna mér eitthvað annað að gera. En við erum nú bara tvær fullorðnar manneskjur á mínu heimili, sem er ekki það stórt, svo ég kemst alveg upp með það, þannig séð. Ég hef reyndar þurft að þrífa heldur meira uppá síðkastið þar sem við erum með fimm kettlinga á heimilinu, en það er önnur saga.
En mig langar svo að koma af stað einhverri þrif rútínu hjá mér, þannig að maður geti haldið þrifunum almennilega við og sé þá að þrífa hlutina jafnt og þétt og ekkert gleymist. Ég er búin að setja upp lista til að skipta niður þrifunum, þannig að ég er með einn lista yfir hluti sem þarf að gera daglega, annan yfir hluti sem þarf að gera vikulega, annan fyrir mánaðarleg þrif og svo síðasta fyrir hluti sem þarf að gera árlega. En svo getur maður auðvitað skipt þessu niður eins og maður kýs. Ég gerði svo annan lista þar sem ég skrifaði niður hvað þarf að gera í hverju herbergi fyrir sig. Þannig að ef ég er að gera vikuleg þrif og það stendur baðherbergi, þá get ég notað hinn listann til að merkja við öll þrifin á baðherberginu sem eru þar. Ég læt umgjörðina af listunum mínum fylgja með hér fyrir hugmyndir og svo getur maður bara fyllt sína lista út eins og hentar manni og sínu heimili best.
Ég ætla að prófa þetta núna og vona að þetta gangi vel hjá mér. Það er svo gaman og gott að hafa allt hreint og fínt í kringum sig, það er ótrúlegt hvað það lætur manni líða vel.
Takk fyrir að lesa