20 vikur

Í dag er ég komin 20 vikur. Finnst alveg ótrúlegt að þessi meðganga sé hálfnuð! Tíminn hefur bæði verið fljótur að líða en líka alveg ofboðslega lengi á köflum.

Þessi meðganga er búin að vera frekar krefjandi með öllu hinu sem er í gangi hjá okkur. Ég komst að því mjög snemma að ég væri ólétt, var reyndar ekki komin með nein óléttueinkenni þegar ég komst að því, það var bara orðið heldur langt síðan ég fór síðast á blæðingar. Ég hef alltaf verið með mjög óreglulegar blæðingar svo ég var ekkert að kippa mér upp við að vera ekki byrjuð. Atla fannst þetta samt orðið eitthvað óþarflega langt og bað mig að taka próf og viti menn, það komu strax tvær línur. Mjög velkomin þungun og við urðum strax ótrúlega spennt! 

Fljótlega eftir að ég komst að því að ég væri ólétt fór ógleðin að gera vart við sig og þreytan maður minn! Þetta var alveg að gera útaf við mig. Ég gat lítið annað gert en að mæta í vinnu og svo bara beint upp í rúm þegar ég kom heim og þar var ég helst þangað til ég átti að mæta í vinnu daginn eftir. Við ákvaðum að segja okkar allra nánustu frá þessu snemma en við höfum gengið í gegnum fósturmissi og þá vissi enginn nema við tvö að ég væri ólétt og fannst okkur það mjög erfitt. Okkur fannst betra að fólkið okkar vissi hvað væri í gangi ef eitthvað skyldi koma uppá. 

Fyrstu 12 vikurnar voru mjög erfiðar og lengi að líða. Að fela þetta í vinnunni var ekkert grín því mér var alltaf svo óglatt og hafði enga lyst, og svo var ég alltaf þreytt. Ég var því mjög fegin þegar við gátum farið að segja frá eftir að hafa farið í 12 vikna skoðun og allt kom vel út. Ofan á þetta fór ég snemma að finna til í grindinni, en það er vandamál sem ég glímdi líka við á síðustu meðgöngu en þá byrjaði það ekki alveg svona snemma. Í kringum 10 vikurnar var ég farin að sofa með brjóstagjafapúða og snúningslak til að reyna að minnka þessa verki. 

Þegar ég var komin í kringum 14 vikur fóru hlutirnir að fara uppávið aftur. Ég varð orkumeiri og ógleðin hvarf að mestu leyti. Það er ennþá sem ég finn stundum fyrir henni aðallega á kvöldin en ég tengi það helst við að ég hafi ekki verið nógu dugleg að borða yfir daginn. En grindin er ennþá að stríða mér og fer bara hægt og rólega versnandi. Það er aðeins dagamunur á mér, sumir dagar eru betri en aðrir sem betur fer. 

Það sem mér finnst samt sennilegar erfiðast við að vera ólétt núna er að mega ekkert taka þátt í framkvæmdunum í húsinu okkar. Síðast þegar ég hitti ljósmóðurina mína í mæðravernd var ég vinsamlegast beðin um að láta þessar framkvæmdir vera. Í staðin sé ég um heimilið, Tristan og reyni að hafa til mat fyrir vinnumennina, einhver verður að sjá um þessa hluti líka. 

Núna finnst mér tíminn líða mjög hratt og hver vikan klárast nánast áður en hún byrjar. Ég finn að ég er ekki jafn upptekin af þessum vikum eins og ég var með Tristan, þá var ég alltaf að pæla í því hvað ég væri komin margar vikur og daga. Ég er heldur ekki eins dugleg að taka bumbumyndir, sem mér finnst reyndar frekar leiðinlegt. Ég á mjög margar bumbumyndir frá síðustu meðgöngu en það var í fyrsta skipti um helgina sem ég fékk Atla til að taka myndir af mér með kúluna mína. Það var aðallega því ég var búin að gera mig til og á leið á uppskeruhátið. 

Á sama tíma og þetta hefur verið krefjandi er ég mjög þakklát fyrir að fá að ganga í gegnum það að vera ólétt aftur. Það er alls ekki sjálfsagt að fólk geti eignast börn og miklu fleiri heldur en maður gerir sér grein fyrir sem eiga í erfiðleikum með það. Miðað við hvað umræðan er að verða mikil um þennan vanda finnst mér á sama tíma eins og óléttar konur megi ekki segja hvernig þeim líður og þá sérstaklega ef meðgangan er erfið. Þær eigi bara að vera þakklátar fyrir að geta eignast börn. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vera vakandi fyrir að það er heldur ekki sjálfsagt að eiga góða meðgöngu. Það er ekkert smá mikið álag á kvennmannslíkaman á meðan hann býr til barn! Leyfum okkur að líða eins og okkur líður og tölum um það.

Þér gæti einnig líkað við