Að velja dagforeldra / Hvað skal hafa í huga?

Þegar kemur að því að koma börnunum okkar í daggæslu er margt sem þarf að hafa í huga.
Nú hef ég starfað sem dagforeldri í nokkurn tíma og hef lært ýmislegt með því að vera hinum megin við borðið.
Langar að koma með nokkra punkta sem gott er að hafa í huga þegar sótt er um daggsælu.

Skoðaðu
Skoða, skoða, skoða! Mæli sterklega með því að fara á sem flesta staði með sem mestum fyrirvara. Þó að Sigga vinkona þín mælti með Möggu dagmömmu, þá þarf samt ekki að vera að þú fílir hana eða tengingin á milli ykkar sé einhver. Gott að fara með opinn huga á hvern og einn stað, jafnvel þó að þú hafir heyrt eitthvað eitt slæmt um staðinn, það eru alltaf 2 hliðar af öllum sögum, svo ekki bíta þessa einu leiðinlegu umsögn í þig og útiloka. Myndaðu þína eigin skoðun. Verðin eru mismunandi eftir dagforeldrum, þeir verðleggja sig sjálfir. Skoða!

Spurningar sem gott er að spyrja dagforeldra þegar komið er að skoða:

• Opnunartími
• Verð – innifalið í verðinu ? (verð eru mismunandi eftir dagforeldrum)
• Fjöldi starfsdaga
• Hvað er í matinn?

· Ákvörðun – staðfesta
Það er rosalega gott fyrir dagforeldra og foreldra að staðfesta strax ef fólk er sátt og hefur ákveðið að taka frá pláss. En mikilvægt er að skrifa undir samning sem fyrst. – ef breytingar verða (flutningar eða eitthvað í þá áttina) og foreldri getur allt í einu ekki tekið plássið þá þarf að láta vita strax, því fyrr því betra. Oftar en ekki eru dagforeldrar kannski búnir að vísa öðrum börnum frá.
Svo lang best er að taka strax upp símann og láta vita.

· Sjálfstætt starfandi – Niðurgreiðsla
Hafa skal í huga að dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi.
Niðurgreiðslan kemur foreldrum mun meira við en dagforeldrum. Því meiri niðurgreiðsla = því lægra kostar plássið
Niðurgreiðslur eru mismunandi eftir bæjarfélögum, mikilvægt er að skoða það.
Til að mynda hefur Reykjavíkurborg dregist verulega afturúr hvað varðar niðurgreiðslu og er í dag með þeim neðstu á listanum hvað varðar niðurgreiðslur á höfuðborgarsvæðinu.
Ég veit að barnavistun, félag dagforeldra hefur rætt við borgina hvað varðar hærri niðurgreiðslur til foreldra, en talað fyrir daufum eyrum.

· Innganga
Þegar kemur að því að þú hefur fengið pláss hjá dagforeldra, inntakan hjá flestum dagforeldrum er lang mest í ágúst, ástæðan fyrir því er einföld, flestir leikskólar eru að taka inn börn þá, svo þá opnast pláss hjá dagforeldrum.
Einnig er stundum tekið inn í júní á leikskólum. Sem er mjög óhentug tímasetning, því að flestir fara í sumarfrí í júlí. Og stundum getur aðlögun í bæði leikskóla og daggæslu tekið upp í 2 vikur, svo hafa skal í huga að þá eru einungis 2 vikur eftir þangað til sumarfrí, og oft kemur fyrir að börnin þurfa aftur aðlögun í ágúst þegar þau koma þá til baka. Og mörg börn þola það ekki. Svo lang best er að byrja í ágúst, jú eða maí ef það er í boði.

· Merkingar
Það er svo mikilvægt að merkja föt barnanna. Og ekki bara fötin, við erum að tala um skó, kerrupoka, regnplast, snuðin – ALLT sem þú ferð með á daggæsluna og leikskólann skal vera merkt! Ég hef ekki tölu á því hvað er mikið af verðmætum sem finnast í “tapað – fundið” hjá dagforeldrum og leikskólum

· Veikindi barna
Við vitum öll að börn verða veik, sum að vísu minna en aðrir, en þau verða veik, og það er ekkert hjá því komist. Mikilvægur punktur þegar kemur að veikindum er að börnin verða heima í einn hitalausann dag áður en mætt er aftur með þau til daggæslu.
Ástæður eru margar, barnið sjálft er oft lítið í sér þennan dag sem það er hitalaust, það er oft enn að smita, þá kemur barnið og smitar restina af börnunum, þannig þá eru fleiri börn veik heima eða jafnvel smita starfsmenn, þá eru öll börnin heima. Svo best er fyrir alla, að barnið eigi einn hitalausann dag heima áður en mætt er aftur í fjörið.

Hvað er gott að hafa með í bakpokanum?
o 2-3x samfellur
o 2-3x buxur
o 2 sokkabuxur/sokka
o auka húfu
o föt til að sofa í, muna eftir vettlingum, ullarsokkum og húfu
o föt til að fara út að leika í, pollaföt, hlýja peysu, vettlinga, og góða skó/sokkaskó

Það að vinna sem dagforeldri er virkilega gefandi og skemmtilegt starf. Og fljótt myndast traust á milli foreldra og dagforeldra og undir lokin eignast maður góða vini og kunningja.
Vonandi koma þessir punktar að góðum notum.

Þangað til næst!

Aníta Rún.

Þér gæti einnig líkað við