10 ráð til að viðhalda hreinu og fínu heimili

Ég er frekar mikil Monica í Friends þegar það kemur að heimilinu. Mér líður miklu betur þegar allt er hreint og fínt í kringum og ég kem miklu fleiru í verk. Við erum nú aðeins tvö á heimilinu, svo það er mjög auðvelt að halda heimilinu hreinu. En ég held, að með því að nota þessa punkta sem ákveðinn grunn, þá verður mun auðveldara að halda heimilinu hreinu og fínu þegar börnin koma. 
Það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum en þetta er allavega það sem hefur virkað fyrir mig og hjálpar mér. 

1. Eiga minna af dóti – Minimalískur lífstíll.
Föt – Þær flíkur sem þú ert búin að nota er raðað öðru megin í fataskápinn, eftir ár þá ferðu yfir fataskápinn og tekur allar flíkurnar sem eru hinum megin og losar þig við þær. Það eru litlar líkur á að þú munir einhverntímann nota þær ef þú hefur ekki gert svo síðasta árið. 
Og þetta á einnig við um hluti, því færri hluti sem við eigum, því minna ,,drasl‘‘ er á heimilinu. Og minna til að þurrka af. 

2. Hver hlutur á að eiga sinn stað. 
Allar snúrur á einum stað, pappírar á einum stað og svo framvegis. Svo þegar þú ert að leita af einhverju þá veistu nákvæmlega hvert þú átt að leita. Og auðveldara að ganga frá ef hver hlutur er með sinn stað. 

3. Ganga frá jafnóðum. 
Sem kemur að þessu. Þegar þú ert búin/n að nota hlutinn, gakktu þá frá honum í stað þess að setja hann niður t.d. á eldhúsborðið af því það er næst þér. En svo þegar þú þarft að nota eldhúsborðið þá þarftu að byrja á því að ganga frá hlutnum sem á ekki heima þar. Tvöföld vinna. 
Ef það er glas inn í stofu þar sem ég er og ég á leiðinni inn í eldhús þá tek ég glasið með mér og nýti þannig ferðina. Í stað þess að skilja allt eftir og taka rispur stöku sinnum. 
Og þetta á sérstaklega við þegar ég er að elda. Geng frá öllu áður en við byrjum að borða svo þegar maturinn er búinn þá eru aðeins diskar, glös og minniháttar leirtau eftir sem þarf að ganga frá. 

4. Gera lítið í einu en oftar.
Ég hef ekki náð að temja mér vikuþrif sem virkar fyrir marga. Í fyrsta lagi þar sem ég er í vaktavinnu og vinnan misjöfn eftir dögum. Og í öðru lagi þá þríf ég alltaf jafnt og þétt, það hentar ekki ónýta skrokknum mínum að gera allt á einum degi. 
Sem dæmi, á meðan ég er að hella upp á kaffi, sem tekur nokkrar sekúndur, þá renn ég yfir eldhúsbekkinn með tusku. 
Þegar ég er búin að þrífa andlitið og setja krem þá þurrka ég aðeins af inn á baði meðan ég bíð eftir að kremið sest inn í húðina.

5. Einfaldaðu hlutina.
Sem dæmi, þá eru öll handklæði og þvottapokar í sama lit. Aðalástæðan fyrir því var að mér fannst það fallegra, en það er auðveldara að þrífa. Þá þarf ekki að sortera í vélar, hvít handklæði og lituð handklæði. Set þau bara öll saman í vél. 
Eitt enn sem ég er að reyna að temja mér, sem mér finnst létta á þvottinum, það er að brjóta saman jafnóðum. Ég er reyndar með sér þvottarherbergi sem gerir þetta auðveldara. Þegar ég tek eina flík af snúrunni þá brýt ég hana saman um leið og flokka í stafla. Þegar ég set allt í þvottabalann óbrotið saman þá á ég það til (nánast alltaf) að skilja það eftir þar í einhverja daga. 

6. Kláraðu verkið 
Þegar þú ert búin/n að ryksuga, tæmdu pokann og gakktu frá ryksugunni á sinn stað. 
Þegar þú ert búin að brjóta saman þvott, settu hann beint í fataskápinn, ekki skilja eftir á borðinu. 
Í stað þess að fresta verkunum endalaust, sérstaklega þeim verkum sem taka enga stund.

,,The longer we wait to do it, the bigger a task it seems in our minds.“

7. Pappírar.
Reikningar og kvittanir. Gott er að eiga möppu sem inniheldur nokkur hólf til að geyma pappíra í. Merkja hvert hólf svo allir pappírar eiga sinn stað. Sleppa ruslpósti í póstkassann og reikninga sem koma hvort eð er í heimabankann, þurfum ekkert endilega að eiga þá í pappírsformi líka. 

8. Búa um rúmið 
Herbergið verður strax mun snyrtilegra. En mundu að leyfa rúminu að ,,anda aðeins‘‘ áður eftir nóttina, áður en þú býrð um rúmið.

9. Donate box.
Við komum kannski auga á hlut sem við munum aldrei aftur nota en vitum ekkert hvert á að setja hann. Þá er gott að eiga kassa sem er eingöngu ætlaður til þess að gefa frá sér, ,,donate-box‘‘. Þegar sá kassi er fullur þá er farið með hann í sorpu, rauða krossinn eða góða hirðirinn. 

10. Podcast eða tónlist.
Til að gera heimilisverkin örlítið skárri en þau eru, þá er fínt að setja gott podcast eða tónlist í eyrun. 
Heimilisverkin verða auðveldari og skemmtilegri. 🙂

Inga

Þér gæti einnig líkað við