Ég gaf dóttur minni ferð til New York í fermingagjöf árið 2015 og þessi ferð er ennþá sú allra besta sem við mæðgur höfum farið í saman. Við eigum klárlega eftir að fara þangað aftur einn daginn, en svona ferð er ekki ódýr og að mínu mati er helgarferð alls ekki nægur tími í New York. Við vorum í 10 daga og hefðum alveg getað hugsað okkur að vera lengur. En hins vegar náðum við samt að gera allt sem við vorum búnar að skrifa niður fyrir ferðina, svo við fórum sáttar heim. New York er klárlega ein af mínum uppáhaldsborgum og langaði mig til að setja saman topp 10 lista yfir hluti sem við gerðum og mælum með fyrir alla NY ferðalanga að gera! Að sjálfsögðu er Empire State, Ground Zero og Times square algjört möst að sjá, en það þarf varla að taka það fram svo ég setti þessa staði ekki á listann.
1. Top of the Rock
Útsýnið þarna er svo miklu flottara en úr Empire state byggingunni. Þú ert nær Central Park og sérð því betur yfir garðinn, plús að þú sérð Empire State líka! Það er frekar dýrt að fara á báða þessa staði, þannig að ef þú þarft að velja, þá myndi ég velja Top of the Rock frekar. Við bókuðum miða fyrirfram á netinu og mæli ég klárlega með því til að sleppa við raðir.

2. Madame Tussauds
Vá við skemmtum okkur svo vel þarna! Tókum fullt af selfies með öllu fræga fólkinu og fórum í ógeðslega skemmtilegt 4D bíó. Þetta er alveg svona 1-2 klst af skemmtun, var svo mikið meira en ég bjóst við einhvernveginn.
3. Sephora
Ef þú ert stelpa sem hefur gaman að því að mála sig eru fleiri orð óþörf.
4. Hjóla í Central Park
Þetta eru um 14 km og alveg mjög gott workout, en mjög fallegt og gaman. Við stoppuðum á Sheep Medow og lögðumst þar í sólbað því við vorum með hjólin í 3 klst leigu og það var svo yndislegt! Við vorum búnar að fara áður í hjólavagni um garðinn með guide svo við vorum búin að sjá alla túristastaðina og þess háttar, þannig að þetta var meira bara svona til að hafa gaman og njóta á eigin vegum.
5. The Beast
Sightseeing sigling með spíttbát. Við fengum sko harðsperrur í munnvikin eftir þessa ferð, það var svo mikið hlegið og skemmt sér. Mennirnir sem stjórnuðu siglingunni voru svo skemmtilegir, útsýnið alveg frábært (það var siglt alveg upp að frelsisstyttunni og stoppað þar fyrir myndatökur) og svo léku þeir sér að gera allskonar beygjur og hopp í sjónnum, svo að þeir sem sátu á endunum blotnuðu vel (Elín).
6. Ellen´s stardust diner
Þar sem starfsfólkið syngur á meðan það þjónar. Og allir sungu geðveikt vel. Við tímdum varla að fara þegar við vorum búnar að borða það var svo gaman þarna. En þetta er mjög vinsæll staður svo það er eiginlega ekki hægt að fara á kvöldmatatíma. Við gerðum margar tilraunir og þá var alltaf 2ja tíma biðröð. Svo við ákváðum einn daginn að fara bara um miðjan dag, vorum mættar um 3 leytið og fengum þá loksins borð.
7. Bryant park
Þarna er yndislegt að fylgjast með mannlífinu og hafa piknik. Eiginlega meira kósý en í Central Park ef útí það er farið, minni garður og allt öðruvísi stemmning bara.
8. Coney Island
Hver elskar ekki strönd og tívolí? Við vorum þarna í ágúst og það var mjög heitt svo við ákváðum að byrja á smá sólbaði. Ég var svo óheppin að skaðbrenna á ströndinni svo við gátum ekki farið í nema 2 tæki þegar ég varð að fara heim vegna sársauka. Sem betur fer var rigning daginn eftir svo ég náði að jafna mig þá. En það er klárlega hægt að eyða heilum degi í Coney Island og við munum klárlega gera það næst þegar við förum til New York. Við fórum með lest og það tók alveg um klukkutíma, en mjög skemmtilegt útsýni á leiðinni, m.a. stærsti kirkjugarður sem við höfum séð.

9. Little Italy
Ef þér finnst ítalskur matur góður þá er þetta staðurinn. Ótrúlega kósý að labba þarna um og skoða mannlífið.
10. Brooklyn bridge
Það er algjört möst að labba yfir Brooklyn bridge! Geggjað útsýni og hinn allra fínasti göngutúr.

Takk fyrir að lesa
Instagram: @rosasoffia