Eins og þið kannski vitið þá hef ég aðeins verið að opna mig með mína ófrjósemi og skrifa um okkar sögu HÉR
Ég er búin að kynnast svo mögnuðum konum sem eru að upplifa það sama og ég dáist alltaf að þeim, hversu sterkar þær eru.
Ég fékk senda sögu sem mig langar að deila með ykkur.
Ófrjósemi er algengari en þú heldur.
Mig hefur langað í barn frá því að ég var 14 ára, í lítið alvöru barn. Ég hef alltaf haldið að það væri sjálfsagt að allir myndu finna sér maka, stofna heimili og eignast börn. En þegar ég fullorðnaðist og fór að íhuga barneignir í alvöru varð raunin önnur. Í dag höfum við, ég og unnustinn, reynt að eignast barn í þrjú ár án árangurs.
Eftir eitt ár í barneigna tilraunum fórum við að hafa áhyggjur að eitthvað gæti verið að og ég talaði við fagaðila um málið. Hún vildi að við reyndum allavega í eitt ár til viðbótar og ræddum svo við hana, sem við gerðum. „Ætlið þið ekkert að fara að koma með barn?“ er algeng spurning sem við fáum, eins og fólk sé að minna mann á að nú sé maður komin á þann aldur að þetta fari bara að verða of seint. Ég set yfirleitt upp grímu svara á þessum nótum: „Jú, ætli það ekki“ eða „Jájá, bara ekki núna“ svo hlæ ég smá með til að láta ekki vonleysið mitt í ljós. En innst inni langar mig helst til að öskra. Allstaðar í kringum mig er fólk sem ég þekki að tilkynna að þau eigi von á erfingja, hver á eftir öðrum, meira að segja þeir sem voru ekki einu sinni að reyna! Það kom svo loksins í ljós fyrir hálfu ári síðan að við getum ekki eignast barn á náttúrulegan hátt. Þegar við fengum hringinguna var eins og það hefði orðið dauðsfall í fjölskyldunni, sorgin var svo mikil. Veröldin hrundi og það var ekkert sem við gátum gert til að laga það. Núna erum við á leiðinni í smásjárfrjóvgun, sem er okkar eina von til að eignast barn. Við krossleggjum fingur, biðjum til Guðs og vonum að allt gangi vel.
Í dag þrái ég að eignast barn, svo heitt að hjartað mitt er að springa.
Flestir hugsa eins og ég gerði áður og átta sig ekki á því hvað það getur verið sárt að fá einfalda og saklausa spurningu á borð við: „Hvenær á svo að skella í kríli?“. Með opinni umræðu um ófrjósemi er hægt vekja fólk til umhugsunar um þessa sorg sem svo margir berjast við. Eftir að ég upplifði ófrjósemi okkar skötuhjúa og fór að tala um það opinskátt komst ég að því að við værum ekki ein. Mjög margir í kringum mig eru eða hafa verið að glíma við sama vanda en ekki viljað tala um það. Það er algengt að fólk byrgi sorgina inni, eins og ég gerði í upphafi. Ófrjósemi á ekki að vera tabú, opnum umræðuna og tölum um það sem liggur okkur á hjarta. Það er ekkert sjálfsagt að allir geti eignast börn. Einn af hverjum sex sem þráir að eignast barn á í erfiðleikum með það. Það er staðreynd. Gætum að nærgætni í nánd sálar og pössum hvað við segjum og hvernig við orðum hlutina.

Til að leyfa þessari sögu að enda vel þá upplifði þessi kona sinn draum og á börn í dag.
Þetta getur tekið mörg, mörg ár hjá sumum. Margar misheppnaðar tæknifrjóvganir og margir missar. En eins og ég skrifaði um í barneignarfærslunni minni sem ég nefndi í byrjun, þá er þetta svo ótrúlega algengt. Þetta er miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir. Svo ég vil láta þig vita að þú ert aldrei ein/n. Það er til íslenskur stuðningshópur á Facebook sem konur geta komið í og talað við aðrar konur sem eru í sömu stöðu. Ykkur er einnig alltaf velkomið að senda skilaboð á mig í gegnum instagram: HÉR
Inga ♡